Drama í samskiptum
Það getur tekið virkilega á að takast á við það sem oft er kallað drama í samskiptum - eða erfið samskipti sem snúast oft um smámuni en geta haft í för með sér erfiða og særandi hegðun.
Þessi dramasamskipti eru oft óbein og óyrt - augngotur, hvísl, hunsun, snúa frá, setja upp svipi osfrv. Sem sagt átök eru í gangi en eru oft óljós fyrir þeim sem fullorðnir eru.
Ef barnið þitt talar um að verða fyrir slíku er mikilvægt að taka mark á því og reyna að skoða vel hvað er í gangi á yfirvegaðan hátt. Líklegt er að barnið hafi rétt fyrir sér og þá einkum ef það talar um að þetta gerist oft. Stundum er hegðunin í gangi á báða bóga en barnið nær ekki að sjá eigin hegðun. En þá þarf að taka það með í reikninginn. Svona dramahegðun getur verið algeng í gegnum allan grunnskólann.
Mikilvægt er að taka svona samskipti alvarlega þó þessar uppákomur snúist oftar en ekki um mjög svo lítilvæga hluti. Allt sem barnið þitt æfir í svona aðstæðum á grunnstigi mun hjálpa því að takast á við samskipti á þroskaðri hátt á miðstigi og unglingastigi. Því fleiri í vinahóp sem æfa góðar aðferðir á grunnstigi því meiri líkur á að hópurinn verði þroskaðri félagslega á seinni árum - sem þýðir minni átök.
Hér eru nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga:
- Mikilvægt er að leggja áherslu á góð samskipti við aðra foreldra.
- Ekki fara í vörn fyrir hegðun eigin barns - öll börn þurfa að þjálfa félagsfærni. Það er bara mismikið hversu mikla þjálfun þau þurfa og á hvaða sviði.
- Varist að dragast sjálf inn í samskiptavanda barnanna eða leyfa því sem gerist milli barnanna að lita foreldrasamskiptin. Reynið að sjá heildarmyndina - ykkar barn þar með talið. Ekki tala illa um önnur börn - það gerir illt verra. Reynið að taka mið af öllum hliðum málsins og vinnið út frá því - ekki hugsa um að vinna slaginn.
- Leyfið barninu að prófa sig áfram með að leysa vandann áður en þið stígið inn í. Aðstoðið barnið við að finna mismunandi lausnir. Oftast er mælt með að stíga út úr samskiptunum og jafnvel róa á önnur mið eða takast beint á við það sem er að gerast.
- Reynið að átta ykkur á hvar vandi ykkar barns liggur og leggið ykkur fram við að þjálfa þau atriði í betri átt. Hægt er að nota aðferðir í þessari verkfærakistu eða finna sérhæfðara efni ef þess þarf. Munið að barnið ykkar lærir mikið af samtölum við ykkur - helst þar sem þið takið dæmi af eigin æsku og/eða notið hinar og þessar félagsfærnisögur og ræðið þær vel eftir á.
- Ræðið við barnið ykkar um að ekki sé endilega gott að einblína bara á eina vinkonu eða vin. Ýtið undir að barnið ykkar eigi tengsl við fleiri og þá tekst þeim oftar að komast hjá svona drama uppákomum.
- Reynið að draga úr því að barnið geri sig að fórnarlambi í svona samskiptum. Hugsið frekar um að finna lausnir. Ef málið snýst til dæmis um að sitja við hliðina á bara einni vinkonu þá er gott að hjálpa barninu að leysa það þannig að það geti og eigi að æfa sig í að sitja hjá hverjum sem er.
- Þjálfið barnið í samkennd - bæði gagnvart sér sjálfu (þá til dæmis eykst sjálfsvirðing og þrautseigja) en einnig gagnvart öðrum. Hér er verkfærakista um samkennd. Það skiptir jafn miklu máli að læra að virða sjálfan sig og aðra. Í appinu okkar (Sterkari út í lífið) er að finna fjölmargar æfingar í samkennd fyrir alla aldurshópa.
- Mörg ofangreind atriði eiga að sjálfsögðu ekki við ef um einelti er að ræða. Þá þarf einnig að víkka út stuðningsnetið og standa þétt með barninu.
Að takast á við dramasamskipti
Eftirfarandi eru fjórar leiðir sem hægt er að fara til að takast á við dramasamskipti sem ekki myndu teljast vera einelti.
Hlusta og skilja:
Þegar barnið þitt segir þér frá slíkum uppákomum skaltu hlusta og skilja. Leyfðu því að tala og segðu sem minnst. Ef það er augljóst að það er að ímynda sér aðstæður eða ofhugsa, ýkja það sem er að gerast þá grípur þú inn með því hugarfari.
Þó barnið sé ekki að ímynda sér aðstæður er samt hægt að hjálpa því að takast á við þær án þess að verða fórnarlamb í þeim. Stattu með tilfinningum barnsins, leyfðu því að tjá þær og finnið svo lausnir.
Ræða við skóla eða aðra foreldra:
Ef þessi samskipti eru þrálát þá er mikilvægt að ræða alltaf við skóla eða aðra foreldra.
Læra að hunsa samskipti:
Ein leið til að takast á við svona samskipti er að kenna því að hunsa þau, láta eins og það taki ekki eftir því sem er að gerast og vera með öðrum vinum. Stundum gengur þetta mjög vel.
Valdefla barnið með aðferðum til að takast beint á við dramasamskiptin:
Ef þið ákveðið að reyna að taka á þessum samskiptum með beinum hætti þá getur verið hjálplegt að gefa barninu einhvers konar handrit til að fylgja. Barnið þitt myndi þá tala sjálft við þau börn sem um ræðir og setja mörk. Þetta þarf að meta í hverju tilfelli fyrir sig.
Í þekktri bók sem kom út um þetta efni, Queen Bees and Wannabes eftir Rosalind Wiseman, er eftirfarandi aðferð kennd sem sett er fram sem leiðbeiningar til barnsins sem fylgir þá þessum skrefum með ykkar stuðningi.
- Staldraðu aðeins við og hugsaðu um hvernig best er að fara að málinu. Ekki láta sterkar tilfinningar gleypa þig. Það er erfitt en nauðsynlegt að setja öðrum mörk. Andaðu og taktu ákvörðun hvort best sé að fara í þetta núna eða seinna.
- Útskýrðu - segðu hinu barninu hvað gerðist og að þér líki þessi framkoma ekki (Dæmi: “Þið farið alltaf að hvíslast á og horfa í áttina til mín þegar ég er nálægt. Ég veit ekki afhverju og ég get ekki stoppað það, en ég giska á að þið séuð að reyna að láta mig líða illa. Ég hef rétt á að ganga um án þess að það sé komið svona fram við mig. Ef það er eitthvað sem þú þarft að segja við mig segðu það þá beint við mig”).
- Taktu ábyrgð á því sem þú hefðir getað gert til að koma þessari framkomu af stað og orðaðu það (ef eitthvað slíkt var til staðar - sem er alls ekki alltaf) en endurtaktu að þú viljir ekki að svona sé komið fram við þig.
- Reyndu svo að koma vináttunni aftur í gang (Dæmi: “Ef þú gætir sagt mér hvað er að þá væri það frábært - reynum að laga þetta”).
Ofangreint er dæmi um leið sem stundum getur hjálpað. Verið samt viðbúin því að stundum þarf að taka smá frí frá vinskapnum – eða í sumum tilfellum, langvarandi frí frá vinskapnum. Mikilvægast er þó að hafa sett mörk. Það þarf mikið hugrekki til að gera ofangreint en gengur furðu oft.
Ef barnið þitt reyndi þetta en hegðunin heldur áfram þá þarf að fara aðra leið: Hlustaðu á sögu barnsins, leggðu þig fram við að skilja líðan þess og speglaðu til baka. Skoðið svo það sem barnið getur stjórnað í þessum aðstæðum. Frekar en að einblína á það sem það getur ekki stjórnað. Börn eru mismunandi og mikilvægt að ýta barninu ekki í eitthvað sem það hefur ekki tök á að standa undir.
Ræðið sérstaklega þessi tvö atriði:
-
- Við stjórnum því ekki hvernig annað fólk hagar sér.
- Við getum ekki neytt aðra til að biðjast fyrirgefningar.
Sem dæmi þá gæti barnið ákveðið að prófa að leika meira við aðra þar sem árekstrar eru færri.
Kenndu barninu þínu að biðjast afsökunar.
Stundum mun barnið þitt vera sú eða sá sem kom illa fram við aðra eða á sinn hlut í þessum drama samskiptum. Lykillinn að því að stöðva drama í vinahópum er að allir hlutaðeigandi kunni að biðjast afsökunar. Börn þurfa að vita að þó þau biðjist afsökunar á einhverju þá eru þau ekki ömurlegar manneskjur. Það þýðir einfaldlega að þau komu að vandamálinu með eigin hegðun og þau sjá eftir því.
Ef allt annað klikkar
Stundum reynir barnið þitt allt ofangreint en ekkert virkar og hegðunin er viðvarandi vikum, jafnvel mánuðum saman. Þá þarf að ganga aðeins lengra með málið og ræða við foreldra hlutaðeigandi. Það er aldrei auðvelt, margir foreldrar festast í vörn en það er samt sem áður nauðsynlegt ef staðan er orðin svona.
Mikilvægt er að leggja áherslu á þetta sé eitthvað sem þurfi að leysa í sameiningu. Engin er alveg vondur og engin er alveg góður. Það er engin þörf á að leysa vandann þannig að viðkomandi börn endi á að vera bestu vinir - það þarf að stoppa dramað og hegðunina. Það að vera bestu vinir er ekki endilega nauðsynlegt. Ef þetta gengur ekki þarf að hafa samband við skólann og athuga jafnvel hvort hér sé um einelti að ræða. Einnig býður Heimili og Skóli upp á stuðning í erfiðum aðstæðum.
Svona erfið samskipti geta komið oft upp á skólaferlinum og barnið þitt gæti þurft að nýta ýmsar aðferðir til að leysa úr málum. En ef þú einblínir á að kenna því aðferðir sem henta þínu barni þá mun það hjálpa því að takast á við ágreining í framtíðinni.
Samantekt
- Hjálpið barninu að standa með eigin tilfinningum og láta vita þegar þeim líður illa í samskiptum við aðra.
- Kennið barninu hvað það er sem það hefur stjórn yfir og hvað ekki.
- Kennið barninu að biðjast afsökunar þegar það gerir eitthvað rangt.