Hægt er að hlusta á æfinguna hér að ofan eða lesa hana fyrir barnið:

Í þessari æfingu ætlum við að færa athyglina að andardrættinum og nýta hann sem akkeri fyrir athyglina. Byrjaðu á að finna fyrir fótum á gólfinu og hvernig þú situr í stólnum. Pældu bara í þér en ekki í öðrum. Gefðu þér og öðrum svolítið rými.

Ef þér finnst það notalegt þá geturðu lokað augunum en þú getur líka bara horft á eitthvað sem er fyrir framan þig.

Færðu nú athyglina á andardráttinn þinn. Skoðaðu öndunina eins og hún er núna. Sýndu þér forvitni og mildi. Þú þarft ekki að breyta neinu. Bara að anda að og frá.

Ef þú vilt geturðu sett hendina á magann og tekið eftir því hvernig maginn lyftist aðeins þegar þú andar að og fellur til baka þegar þú andar frá þér. Andaðu að og frá.

Það er engin rétt eða röng leið til að upplifa þetta, bara anda að og frá, að og frá. Kannski andarðu hægt, kannski hratt. Kannski andarðu grunnt og kannski djúpt. Skoðaðu bara hvernig þú andar einmitt núna. Anda að og frá.

Þegar þú tekur eftir því að athyglin þín fer af andardrættinum og að einhverju öðru, ekki hafa áhyggjur af því, það er bara það sem hugurinn gerir. Taktu bara eftir því hvert hugurinn þinn fer og færðu athyglina svo aftur að andardrættinum.

Kannski þarftu að gera þetta oft og kannski sjaldan. Notaðu núna þögnina til að æfa þig aðeins í þessu.

Nú er æfingin að verða búin, smám saman kemurðu til baka úr æfingunni og víkkar athyglina frá andardrættinum og að því sem er í kringum þig.