Ýmislegt gengur á í lífinu, gott og slæmt. Sorgir og gleði, óvæntir atburðir og alls konar tilviljanir. Að kenna börnum að takast á við erfiðeika er eitt mikilvægasta uppeldishlutverkið. Ef þau venjast því að aðrir grípi alltaf inn í er vandi á höndum.

Það sama gerist ef þau læra að hunsa vandann, forðast hann eða láta eins og hann sé ekki til staðar. Bjargráð (coping skills) er það orð sem við notum til lýsa þeim aðferðum sem við nýtum þegar upp koma erfiðleikar og slæm líðan. Ef við lýsum þeim á einfaldan hátt þá eru þessir þrír flokkar oft notaðir:

  1. Láta eins og vandinn sé ekki til staðar, dreifa huganum á neikvæðan hátt, hunsa erfiðleikana og aðstæðurnar sem fylgja þeim.
  2. Týnast í tilfinningunum sem koma upp og jafnvel hræðast þær. Sjá ekki út fyrir þær og lamast. Gera ekki neitt í vandanum.
  3. Taka eftir tilfinningunum en lamast ekki inn í þær. Finna fyrir tilfinningunum sem koma upp, tala um þær, nefna þær á nafn og skilja þær. Orða svo vandann, sjá heildarmyndina og finna lausn sem virkar. Stundum felst leitin að lausninni í að biðja um aðstoð eða ráð.

Meira er hægt að lesa um þetta hér.

Við notum ýmis bjargráð við alls konar aðstæður - t,d þegar við erum stressuð. Hér er gott myndband sem lýsir þessu:

Æfum okkur nú í að skilja bjargráðin okkar. Finndu dæmi fyrir allt af eftirfarandi:

  1. Eitthvað vandamál kom upp og þú ákvaðst að láta eins og það væri ekki að gerast. Þú hunsaðir vandann. Hvað var það sem kom upp? Hvað náðir þú að hunsa vandann lengi? Hverjar voru afleiðingarnar?
  2. Eitthvað erfitt gerðist og fullt af tilfinningum komu upp. Þér tókst ekki að ráða fram úr þeim og varst í uppnámi. Þér leið ansi illa og festist bara einhvern vegin í þeirri líðan. Hvað gerðist? Hvaða tilfinningar voru það sem komu upp? Hversu sterkar voru þær á skalanum 1-10 (þar sem 10 er svo slæm líðan að þér fannst bara erfitt að anda)? Hversu lengi leið þér svona? Hefði verið hægt að stytta þann tíma?
  3. Aftur kom eitthvað erfitt upp. Þér leið ekkert vel og fannst tilfinningarnar ágætlega. Þú gast séð hvað var að gerast og talað við sjálfa/n þig í huganum. Farið svoldið yfir stöðuna eins og íþróttafréttamaður lýsir íþróttaleik. Þrátt fyrir erfiða líðan gastu einhvernvegin fundið lausnir á vandanum. Eða alla vega byrjað að hugsa það. Kannski baðstu einhvern um aðstoð. Hvað var það sem kom upp? Hvaða tilfinningar upplifðir þú? Hversu langur tími leið þangað til þú varst farin að finna lausnir? Hver var lausnin?

Prófum svo eitt að lokum. Hvað er framundan í næstu viku sem gæti verið erfitt? Við vitum ekki alltaf hvað er handan við hornið og notum þau bjargráð sem við kunnum þegar eitthvað óvænt kemur upp á. En ef þú veist um eitthvað sem gæti komið upp þá gæti verið gott að skrifa aðeins um það:

  1. Hvað er það sem þú heldur að gæti komið upp?
  2. Hvaða tilfinningar gæti þú þá upplifað?
  3. Hvaða gildru gætir þú fallið í hvað sjálfstal varðar? Hvaða hugsanir færu mögulega af stað sem draga aðeins úr þér máttinn?
  4. Hvað gætir þú gert til að leysa vandann?
  5. Hvað gætir þú frekar sagt við sjálfa/n þig?