Þegar unglingurinn þinn á það til að vera óöruggur í samskiptum og hefur æft sig á ýmsum aðferðum sem nefndar eru í þessari verkfærakistu er komin tími til að klífa fjallið og prófa.  Besta leiðin til að verða öruggari í samskiptum er að æfa sig.  Maður lærir ekki að hjóla með því að horfa á myndbönd - maður verður að prófa og detta annars lagið en verða smátt og smátt öruggari.  Það sama á við um að verða öruggari í félagslegum samskiptum.

Það getur verið erfitt að hvetja unglinga sem eru sjálfsmeðvitaðir og óöryggir í samskiptum að láta vaða.  En ef þau hafa fengið stuðning (til dæmis úr verkefnum hér) þá gengur oft betur að gera einhverskonar áætlun.  Það skiptir máli að reyna að taka þátt í einhverjum samskiptum til að læra mynstrin og reglurnar sem gilda í hópnum.  Prófaðu að setjast niður með unglingnum þínum og gera áætlun sem getur til dæmis snert á eftirfarandi atriðum:

  1.  Hægt er að byrja á að æfa að slaka betur á í kringum jafnaldra og nota verkefnið hér í verkfærakistunni.  Þá er til dæmis hægt að velja einhverjar ákveðnar aðstæður sem unglingnum finnst vera auðveldastar og byrja þar.
  2. Gera það sama varðandi verkefnið “Hlustun” - gera áætlun um að æfa það í mismunandi aðstæðum og byrja á þeim auðveldustu.
  3. Ákveða að ná 20-100 félagslegum samskiptum yfir eina ákveðna viku (eða fleiri).  Þá dugar að segja hæ við einhvern, brosa, spyrja einhvern að einhverju osfrv.
  4. Prófa að æfa það að hafa frumkvæði að samskiptum.  Þá liggur beinast við að spyrja einhvern um að hanga saman eða gera eitthvað.  Hægt er að gera áætlun um að hafa frumkvæði ákveðið oft í viku eða mánuði - allt eftir því hvað unglingurinn er til í.
  5. Æfa sig á fjölskyldumeðlimum - bæði á svipuðum aldri og eldri/yngri.  Þarna erum við að tala um fjölskylduhittinga þar sem algengt er orðið að unglingar hverfi á bak við símann.  Þetta er hægt að æfa skipulega og nota verkfærin hér.  Það að geta talað við gamlar frænkur, frændsystkini, afa og ömmu er ómetanleg æfing í félagsfærni.  Hægt er að gera áætlun um að vera í samskiptum (virk hlustun) án þess að þurfa að segja mikið (ekki í símanum).  Óþarfi er að leggja kröfu á löng samtöl - stutt samtöl skipta líka miklu í þessari æfingu.  Stundum er líka hægt að sitja bara með og segja lítið - en æfa virka hlustun.
  6. Áður en farið er í æfingar í þessu þá getur verið gott að fara yfir styrkleika unglingsins.  Eiga samtal og skrifa jafnvel niður.  Allir þurfa reglulega að minna sig á styrkleika sína og í þessu tilfelli er það nauðsynlegt.  Ekki er nóg að eiga það samtal einu sinni - það þarf að endurtaka oft.

Þetta getur verið erfitt en það skiptir miklu máli að unglingurinn fái stuðning til að komast hægt og rólega út úr forðun á félagslegar aðstæður.  Þegar við forðumst það sem er erfitt þá versnar líðanin.  Við þurfum að geta tekist á við hættulausar/litlar en krefjandi aðstæður með stuðningi.  Við þurfum að geta gert erfiða hluti.

Ef grunur er á félagskvíða sem er orðin hamlandi er mikilvægt að leita til fagfólks.