Æfingar um ábyrgð
Gögn: Meðfylgjandi spurningar
Markmið: Hugtakið ábyrgð greint, að taka afstöðu, mynda sér skoðun á álitamálum og færa rök fyrir afstöðu sinni
Lýsing:
Í eftirfarandi æfingum taka þátttakendur afstöðu til álitamála sem hafa með ábyrgð að gera. Mögulegt er að velja úr álitamál sem þátttakendur taka afstöðu til og rökræða eða láta þátttakendur taka afstöðu til þeirra allra áður en valin álitamál eru rökrædd.
Afbrýðisemi og ábyrgð
Maður sem ekki hefur notið velgengni í lífinu er afbrýðisamur út í vinnufélaga sinn sem hefur notið mun meiri velgengni í lífi og störfum. Hann ver ekki vinnufélaga sinn sem hefur verið handtekinn og dæmdur fyrir glæp sem hann framdi ekki þó hann viti um sakleysi hans. Er þessi maður sem veit af sakleysi vinnufélagans ábyrgur fyrir því að hann sitji í fangelsi?
- Ábyrgur fyrir því að vinnufélagi hans er í fangelsi.
- Ekki ábyrgur fyrir því að vinnufélagi hans er í fangelsi.
- Annað?
Bensíndælan
Eftir að hafa dælt bensíni á bílinn þinn í bensínsjálfsala tekur þú eftir því að sjálfsalinn tekur 2000 kr. of mikið út af kortinu þínu. Þú hefur ekki samband við ábyrgðarmenn bensíndælunnar til þess að gera athugasemd þó gefið sé upp símanúmer. Þú ert …
- ábyrg(ur) fyrir því að tapa peningnum.
- ekki ábyrg(ur) fyrir því að tapa peningnum.
- Annað?
Umferðalög brotin
Lögreglumaður sem er ekki á vakt keyrir hraðar en hámarkshraði segir til um, til þess að góma bankaræningja sem hann sá. Hann…
- brýtur umferðalög og ætti að vera sektaður.
- brýtur umferðalög en ætti ekki að vera sektaður.
- Annað?
Leitað að sjálfri sér
Leit að erlendri konu sem hafði verið saknað síðan um hádegi í gær var hætt um klukkan þrjú í nótt þegar í ljós kom að hún var alls ekki týnd. Hún hafði þvert á móti hjálpað samviskusamlega til við að leita að sjálfri sér. „Konan sem er tvítug hafði verið í áætlunarferð. Þegar hún skilaði sér ekki aftur í rútuna á tilsettum tíma var hafin leit að henni. Björgunarsveitir voru kallaðar út og óskað eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar við leitina. Í nótt kom svo í ljós að konan var ekki týnd heldur í hópi ferðamannanna sem ýmist hafðist við í rútunni á meðan á leitinni stóð eða aðstoðaði við hana. Þannig kom það til að þessi týnda kona leitaði að sjálfri sér." (visir.is 26 ágúst 2012). Konan er ...
- ábyrg fyrir því að allir fóru að leita.
- ekki ábyrg fyrir því að allir fóru að leita.
- annað.
Fellibylurinn
Fellibylur á að skella á borginni eftir sólarhring. Borgaryfirvöld segja að íbúarnir eigi að fara út úr borginni þar sem mikil hætta sé á ferðum. Einn maður ákveður að fara ekki og segir frá því í sjónvarpsviðtali Síðan skellur fellibylurinn á og maðurinn deyr.
- Hann er ábyrgur fyrir dauða sínum.
- Borgaryfirvöld eru ábyrg fyrir dauða hans þar sem þau tóku hann ekki með valdi út úr borginni.
- Fréttamaðurinn er ábyrgur fyrir því að hafa ekki gert neitt til þess að hann færi út úr borginni.
- Annað.