Eitt mikilvægt atriði í vináttu er að læra að taka tillit til annarra og skiptast á. Það þýðir að enginn einn stjórnar og ákveður hvað allir gera. Það getur verið erfitt að eiga vin sem vill alltaf stjórna öllu sem gert er. Stjórnsamir vinir vilja oft ráða hvaða leik er farið í, segja vinum hvað þeir eiga að segja við aðra og segja vinum sínum hverja má leika við og hverja ekki.

Ef þú tekur eftir því að barnið þitt gerir þetta skaltu taka á því strax. Þetta er atriði sem skiptir miklu hvað varðar hæfni barnsins til að eignast vini og halda þeim. Sum börn læra þetta mjög fljótt og af innsæi meðan önnur þurfa að læra þetta af samtölum við þig - foreldrið.

Barnasálfræðingar taka eftir því að barn sem er gjarnt á að stýra í leik er oft einnig að stýra heima, bæði foreldrum og systkinum. Því þarf oft einnig að taka á þessari hegðun heima til að auka líkur á að barnið nái tökum á þessu í vinahóp.

  • Ræðið við barnið um upplifanir sínar af þessu. Hefur barnið leikið við einhvern sem vill stjórna? Hefur barnið einhvern tíma verið sá eða sú sem vill stjórna öðrum? Hefur barnið leikið við einhvern þar sem þessir hlutir voru í jafnvægi? Hvernig leið barninu í þessum mismunandi aðstæðum? Ræðið þetta aðeins og passið að skoða báðar hliðar. Segið gjarnan dæmi af ykkur þegar þið voruð yngri.
  • Hvernig líður barninu þegar það leikur við einhvern sem vill stjórna? Ræðið þetta sérstaklega. Svona speglun getur verið gagnleg til að hjálpa barninu að setja eigin hegðun í samhengi.
  • Foreldrar sem sjá börn sín taka stjórnina of mikið í leik eiga það sumir til að grípa ekki nægilega hratt inn í. Sumir sjá þessa stjórnun barnsins sem dæmi um sjálfsöryggi þess og að öll inngrip séu óþörf. Aðrir fara í að reyna að láta allt ganga upp fyrir barnið til að forðast árekstra og vesen meðan á vinaheimsókninni stendur. Best er að grípa inn í meðan á heimsókninni stendur en eiga svo betra samtal við barnið þitt seinna. Það er allt í lagi að endurtaka slík samtöl nokkrum sinnum.
  • Prófaðu að tala við barnið þannig að það sjái að þú sért að hjálpa því að læra vinareglurnar - ekki að það sé eitthvað að því sjálfu. Barnið er ekki vandamálið heldur hegðunin.
  • Þegar þér finnst barnið þitt vera búið að skilja aðeins betur hegðun sína og áhrif hennar á aðra þá er gott að grípa til annarra verkfæra eins og að semja, mætast á miðri leið, leysa úr ágreiningi. Sum börn þurfa mikla þjálfun í þessu en önnur minni. Endurtekning er það sem þessi þjálfun snýst um.
  • Skoðið hverjar ástæður svona stjórnunar gæti verið. Stundum er um að ræða vítahring sem ekki hefur tekist að uppræta. Sem dæmi þá geta foreldrar sem eru undir miklu álagi dottið í þá gryfju að láta of mikið undan til að halda öllu góðu og þá getur vítahringur skapast. Í sumum tilfellum getur kvíði barns verið þess valdandi að það vill stýra umhverfi sínu og öðrum of mikið. Ef það gæti verið ástæðan þá gæti þurft að fá álit og aðstoð fagfólks.