Margir kvarta yfir því að krafan um að allir þurfi að vera fullkomnir sé orðin íþyngjandi. Öll viljum við að öðrum líki vel við okkur en sumir finnst þeir þurfa að ganga lengra og reyna að fínpússa öll smáatriði í framkomu og útliti. Það er á hinn bóginn mikilvægt að leyfa sér að gera mistök og vera mannlegur. Mörgum finnst það erfitt, sérstaklega eftir að samfélagsmiðlar urðu vinsælir og áhrifavaldar þeirra af ýmsu tagi urðu viðmiðið. Myndin sem fólk gefur af sér á samfélagsmiðlum er oft mikið fegruð og eru flestir fullorðnir meðvitaðir um það en börn og unglingar eru eðlilega ekki alltaf að átta sig á því.

Í þessum myndböndum er farið yfir þetta á skemmtilegan hátt:

Léttirinn sem fylgir því að láta af fullkomnuninni er frábær tilfinning að upplifa. Þeir sem reyna að vera fullkomnir verða alltaf óhamingjusamir því engin getur verið fullkominn. Margir hafa reynt það en engum tekst það. Sumum virðist vera að takast það en þegar litið er nær þá kemur í ljós að svo er ekki. Kannski er maður bara fullkomin þegar maður reynir ekki að vera fullkomin?

Ef við leyfum okkur að vera mannleg þá líður öðrum betur í kringum okkur. Ef við hugsum um fólkið í kringum okkur þá er líklegt að þér líði best í kringum þá sem leyfa sér að gera mistök og jafnvel tala um þau, hafa húmor fyrir sjálfum sér. Þetta er fólk sem mætir í skólann án þess að þurfa að fela allar bólurnar og segir frá þegar það gerði óvart eitthvað asnalegt. Þegar þú leyfir þér að vera mannleg/ur þá gefur þú öðrum leyfi til að slaka á og vera það líka. Ef þú reynir að vera fullkominn þá stressast allir upp og reyna það líka - hætta að vera þeir sjálfir.

Leiðbeiningar:

Í þessu verkefni ætlum við að velta því fyrir okkur hvað fullkomnun er, hvort fullkomnun sé möguleiki og mikilvægi þess að leyfa sér að vera mannlegur. Hér fyrir neðan er uppástunga að umræðupunktum.

Skoðið umræðupunktana hér að neðan og töfluna hér að ofan. Ef foreldri gerir þessa æfingu með unglingnum væri gott að deila mannlegum dæmum af sjálfum sér. Við mælum með því að foreldrar svari þessum spurningum líka - og hafi þá sjálfa sig í huga.

Umræðupunktar:

  1. Finnst þér þú finna fyrir þeim væntingum að þurfa að vera gallalaus?
  2. Hafa einhverjir áhrifavaldar á samfélagsmiðlum þannig áhrif á þig? Eða aðrir sem eru á samfélagsmiðlum?
  3. Langar þig oft að vera öðruvísi en þú ert þegar þér finnst einhver annar vera flottari? Áttu það til að láta álit annarra hafa of mikil áhrif á þig?
  4. Finnst þér auðvelt/erfitt að takast á við skilaboð áhrifavalda?
  5. Hugsaðu nú um allt fólkið sem er í kringum þig í lífinu. Hverjum er auðveldast að vera með (fjölskylda eða vinir)?
  6. Af hverju líður þér svona vel í kringum þessa aðila?
  7. Ef þú ætlaðir að gera tilraunir með að leyfa þér að vera mannleg/ur hvað gætir þú gert? Væri það t,d eitthvað útlitstengt? Eitthvað annað? Eru einhverjar myndir á Instagram sem þú tókst út því þér fannst þú ekki koma nægilega vel út? Er til einhver mynd af þér þar sem þér finnst þú ekki standast kröfur sem þú gætir sett inn bara til að æfa þetta?
  8. Prófið að skoða hvort einhverjir styrkleikar ykkar geti stundum verið gallar - og hvort einhverjir gallar geti stundum verið styrkleikar. Þegar við hugsum þetta svona þá sjáum við að þetta fer í hringi.