Stundum gleymum við okkur í samtali og truflum það sem hinn er að segja. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir þessu eins og að okkur datt allt í einu eitthvað í hug en vildum ekki gleyma því eða við bara gleymdum að hlusta og fórum að hugsa um eitthvað annað. Það er allt í lagi að gleyma sér annars lagið - það gera það allir. Það að trufla óvart samtal er eitthvað sem bæði börn og fullorðnir gera óvart. En mikilvægt er að muna eftir þessu sem eitt af mikilvægustu atriðunum í að læra að vera góður vinur.

Ef barnið þitt á til að gera þetta meira en gott er skaltu eiga samtal þar sem þú byrjar á að segja barninu frá dæmum þar sem þú gleymdir þér og truflaðir samtal. Rifjið einnig upp dæmi þar sem barnið var truflað í samtali og hvernig því leið. Einnig er hægt að rifja upp dæmi þar sem barnið truflaði aðra og giska á hvernig hinum leið. Að lokum er gott að kenna “geyma og bíða” aðferðina. Svona samtöl þarf oft að endurtaka og mikilvægt er að ræða þetta þannig að þetta sé bara eitthvað sem þarf að æfa - það sé ekkert að barninu - margir þurfi að æfa sig í þessu.

Aðferðin “geyma og bíða” er góð leið til að nota. Dæmi: Þú ert í samtali við vin sem er að segja þér sögu af einhverju sem gerðist. Á meðan hann er að tala þá manstu allt í einu eftir því að eitthvað svipað hafði gerst fyrir þig. Þig langar rosalega mikið að grípa fram í og bæta við þinni sögu. En í staðin þá geymir þú þína í huganum á góðum stað og bíður þangað til vinur þinn er búin að klára þína sögu. Þá segir þú það sem þig langaði að segja og vinur þinn hlustar á þig. Svona gengur þetta fram og til baka. Ef þú gleymir því sem þú ætlaðir að segja þá er það allt í lagi - þú manst það örugglega næst. Það kemur alltaf annað tækifæri. Það sem þú hefur að segja skiptir líka máli.