5 mínútur með mér
Þessa æfingu er hægt að gera reglulega yfir daginn til að koma í veg fyrir að spenna safnist upp. Þá tekst okkur að stoppa óþarfa niðurrif í hugsunum og minnka það að erfiðar tilfinningar fylgi í kjölfarið. Við hvetjum foreldra til að reyna við þessa æfingu líka.
Prófaðu að:
- Setjast niður á góðan stað þar sem þú getur aðeins lokað augunum og fundið smá kyrrð. Sumum finnst gott að opna augun annað slagið og skrifa eða teikna. Sumum finnst líka gott að halda á steini í lófanum.
- Byrja á að anda rólega og passa að tungan sé slök. Gott er að láta hana hanga í munninum, passa að hún sé ekki föst við efri góm. Hvernig líður þér í líkamanum? Hvar er spenna? Skrifaðu um það eða hugsaðu um það og teygðu svo á líkamanum eins og þér finnst þægilegast.
- Byrjaðu svo að skoða líðan þína og tilfinningar, hvað er að gerast þarna undir niðri? Hvernig líður þér? Hvaða hugsanir koma upp?
- Notaðu hjálplega sjálfstalið þitt ef þú þarft.
- Skoðaðu aftur öndunina. Ekki reyna að breyta henni neitt sérstaklega. Settu höndina á magann. Lyftist maginn þegar þú andar inn? Er öndunin hröð eða hæg? Fylgstu bara aðeins með henni.
- Hvað væri best að gera núna svo þú haldir áfram að vera við stjórn út daginn, þó svo að ýmislegt í umhverfi þínu sé erfitt? Er þetta nóg eða þarftu að gera eitthvað annað eins og að teygja þig, hlusta á ákveðna tónlist, teikna og lita o.s.frv.?