Núvitund og samkennd
Núvitund
Með núvitund (e. mindfulness) er átt við þá hæfni sem við búum öll yfir, að beina athyglinni meðvitað af opnum huga að hlutunum eins og þeir eru. Að skynja hvað við erum að upplifa á meðan við upplifum það. Að skynja að við erum að ganga á meðan við göngum. Að skynja að við erum að tala á meðan við tölum. Að skynja að við erum að hlusta á meðan við hlustum.
Það er eðli hugans að reika í burtu. Hann reikar sífellt frá okkur, í eitthvað annað en við erum að fást við. Hver kannast ekki við að ætla að kaupa mjólk á leiðinni heim, en vera síðan komin heim án þess að vera með mjólkina. Alveg magnað að líkaminn geti ferðast á milli staða án þess að við séum til staðar! Við getum því misst af virkilega mikilvægum augnablikum vegna þess að hugurinn okkar er einhvers staðar á reiki. Þannig getum við misst af samræðum við makann, vinina eða börnin vegna þess að hugurinn er svo upptekinn við eitthvað allt annað. Eins og að skipuleggja, sjá eftir einhverju úr fortíðinni eða hafa áhyggjur af framtíðinni.
Með auknum hraða og álagi verðum við síður til staðar hér og nú. Við stillum á þessa svokölluðu „sjálfstýringu“ hugans, þ.e.a.s. líkaminn okkar gerir það sem hann gerir en hugurinn er einhvers staðar annars staðar. Við „aftengjumst“ - horfum án þess að sjá, heyrum án þess að hlusta, snertum án þess að finna, borðum en finnum ekki bragð og öndum án þess að finna lykt. Öll upplifunin verður daufari og lífið litlausara.
Þess vegna er svo dásamlegt að átta sig á því að við þurfum ekki að lifa lífinu með þessum hætti. Við höfum val! Við getum öll haft áhrif á hversu mikið og hvenær við erum til staðar. Oftar en ekki stýrist það af því sem skiptir okkur í raun og veru máli. Þannig að ef fjölskyldan, vináttan og vinnan skiptir okkur máli þá getum við stutt okkur í því að vera meira til staðar á þeim augnablikum með hugarþjálfun. Niðurstöður rannsókna sýna fram á að hugarþjálfun skilar sér í aukinni vellíðan og lífsgæðum og minni streitu, depurð og kvíða.
Í núvitundarþjálfun þjálfum við athyglina í að vera þar sem við viljum að hún sé. Hvort sem það er á önduninni, einhverjum líkamshluta eða athöfnum daglegs lífs. Í hvert sinn sem athyglin reikar burtu þá færum við hana mjúklega aftur að því sem við erum að einbeita okkur að á þeirri stundu og með því styrkjum við „athyglisvöðvann“ í huganum. Rétt er að taka það fram að það er enginn athyglisvöðvi í huganum en það getur verið hjálplegt að sjá það þannig fyrir sér þar sem hugarrækt er að mörgu leyti eins og líkamsrækt. Við þurfum að taka frá tíma til að rækta hugann okkar til að hafa hann eins sterkan og hann mögulega getur verið. Alveg eins og með líkamann okkar.
Í hvert sinn sem við tökum frá tíma til að þjálfa núvitund okkar erum við að mæta okkur eins og við erum. Í raun má líta á núvitundaræfingar sem stefnumót við sjálfan sig. Með því að taka frá tíma til að vera með okkur sjálfum kynnumst við okkur eins og við erum. Við lærum að sitja með okkur sjálfum og því sem er að gerast innra með okkur (hugsanir, tilfinningar, líkamskenndir og hvatir), hvort sem það er þægilegt eða óþægilegt og þannig skerpa sýn okkar á hvað er að gerast innra með okkur og styrkja tilfinningalegt þol okkar. Við kynnumst okkur betur og lærum aðferðir til að tengjast okkur, sem við getum síðan nýtt okkur í daglegu lífi þegar við erum á hlaupum og erum aftengd.
Hvert augnablik í daglegu lífi er tækifæri til að þjálfa sig í núvitund og tengjast sér aftur. Með því að taka jafnframt frá tíma fyrir núvitundaræfingar þá náum við að staldra við og átta okkur betur á lífsgildum okkar og hvað skiptir okkur máli í raun og veru. Þannig styðjum við okkur í því að lifa lífinu í takt við okkar eigin lífsgildi og náum að vanda okkur betur í lífinu. Það sem gerist líka er að með því að verja tíma með okkur sjálfum og kynnast okkur betur þá fer okkur jafnframt að þykja vænna um okkur og við förum ósjálfrátt að vanda okkur betur í sjálfstali og hlúa betur að okkur og ástvinum okkar.
Samkennd í eigin garð
Oft er talað um að núvitund sé forsenda fyrir samkennd í eigin garð (e. self-compassion). Fyrst þurfum við að vakna til vitundar um hvernig okkur líður (núvitund) áður en við getum ákveðið hvernig við getum brugðist við með hjálplegum hætti (samkennd). Samkvæmt Kristin Neff, sem er frumkvöðull í rannsóknum á samkennd í eigin garð, þá samanstendur hún af þremur þáttum; núvitund, sammannlegum þáttum (e. common humanity) og góðvild í eigin garð. Þessir þrír þættir virka sem afl gegn öðrum óhjálplegum þáttum innra með okkur. Núvitund virkar gegn tilhneigingu okkar til að ofursamsama okkur hugsunum og tilfinningum (mér finnst ég vera hræðileg manneskja þannig að það þýðir að ég sé hræðileg manneskja). Sammannlegir þættir virka gegn tilhneigingu okkar til að einangra okkur (finnast við vera ein í heiminum að líða illa) og góðvild í eigin garð virkar virkar gegn tilhneigingu okkar til að gagnrýna okkur og rífa niður.
Í gegnum tíðina höfum við flest fengið góða þjálfun í að sýna öðrum samkennd en ekki okkur sjálfum og því getur það reynst fólki erfitt að þjálfa sig í að sýna sér samkennd. Margar innri hindranir eru í veginum. Við getum haft áhyggjur af því að við virkum sjálfselsk, látum allt eftir okkur, dettum í sjálfsvorkunn eða hættum að vera dugleg og drífandi. Hins vegar hafa niðurstöður rannsókna sýnt að þeir sem búa yfir þeirri færni að sýna sér samkennd, þeim farnast almennt mjög vel í lífinu. Þeir ná að takast á við erfiðleika af jafnlyndi og ró. Því meira sem samkennd í eigin garð eykst því meira eykst samkennd í garð annarra. Þeir sem ná tökum á þessu setja sér raunhæfari markmið og hvetja sig áfram til að ná þeim á heilbrigðan og hjálplegan máta til langtíma litið.
Núvitundin snýst um hlýja og milda meðvitund um upplifunina
Samkenndin snýst um hlýja og milda meðvitund um þann sem upplifir
Núvitundin spyr, „Hvað er ég að upplifa akkúrat núna?“
Samkennd í eigin garð spyr, „Hvers þarfnast ég akkúrat núna?“
Núvitundin segir, „Finndu fyrir þjáningunni með vakandi og mildri athygli“
Samkennd í eigin garð segir, „Sýndu þér góðvild þegar þú þjáist“
Núvitundin kælir (róar)
Samkenndin hitar (virkjar)
Í hugarþjálfun má líta á núvitund og samkennd eins og tvo vængi á sama fugli – það þarf báða til að fljúga og er mikill styrkur fyrir okkur öll að geta nýtt þá til flugs á þessu ferðalagi lífsins.
Það er eðli hugans að reika í burtu. Hann reikar sífellt frá okkur, í eitthvað annað en við erum að fást við. Hver kannast ekki við að ætla að kaupa mjólk á leiðinni heim, en vera síðan komin heim án þess að vera með mjólkina.
Hvert augnablik í daglegu lífi er tækifæri til að þjálfa sig í núvitund og tengjast sér aftur. Með því að taka jafnframt frá tíma fyrir núvitundaræfingar þá náum við að staldra við og átta okkur betur á lífsgildum okkar og hvað skiptir okkur máli í raun og veru.