Hvað er líkamsmynd? Hvað mótar hana?
Sjálfsmynd (self–image) er veigamikill þáttur í andlegri líðan, þar sem hún hefur áhrif á það hvernig við hugsum, tölum og hegðum okkur. Sjálfsmynd er sú sýn sem við höfum á okkur sjálfum. Þeir sem eru með góða sjálfsmynd eru líklegri til að hafa raunsæja sýn og þekkingu á sjálfa sig en þeir sem eru með slæma sjálfsmynd.
Sjálfsálit (self-esteem) er mat okkar á okkur sjálfum. Rannsóknir á sjálfsáliti hafa sýnt að stúlkur hafa lægra sjálfsálit en drengir. Þann mun sem finna má á sjálfsáliti kynjanna má oftast rekja til þeirrar sýnar sem kynin hafa á útliti sínu eða líkama. Stúlkur hafa að jafnaði neikvæðari líkamsmynd en drengir sem getur skýrt þann kynjamun sem finnst á sjálfstrausti eða sjálfsmynd.
Líkamsmynd (body-image) er sú skoðun eða sýn sem við höfum á útliti okkar eða líkamsvexti. Líkamsmynd er hluti af sjálfsmynd fólks og snýr að hugsunum, skynjunum og tilfinningum þess til eigin líkama. Mörg hugtök eða orð hafa verið notuð til að lýsa því hvað felst í hugtakinu líkamsmynd, eins og sátt við eigin þyngd, sátt við eigið útlit og líkamsvirðing. Í megindráttum þá má segja að því ánægðari eða sáttari sem við erum með eigið útlit því betri er líkamsmyndin.
Almennt sýna rannsóknir að kynjamun megi finna á neikvæðri líkamsmynd þar sem stúlkur eru með neikvæðari líkamsmynd en drengir. Samfélagslegur þrýstingur sem ríkt hefur í garð kvenna í gegnum tíðina um að uppfylla ströng útlitsviðmið er talinn vera einn af megin orsökum slæmrar líkamsmyndar stúlkna. Rannsóknir sýna að stór hluti kvenna er óánægður með líkama sinn og beitir ýmsum aðferðum til að breyta líkama sínum og útliti.
Margt getur haft áhrif á líkamsmynd okkar. Til að mynda getur það samfélag sem við búum í haft neikvæð áhrif á mótun líkamsmyndar. Mikil áhersla á útlit og ákveðna tegund útlits t.d. granns vaxtarlags getur haft neikvæð áhrif á líkamsmynd okkar, sérstaklega þeirra sem telja sig ekki uppfylla skilyrðin um „hið fallega útlit“ .
Þrýstingur um að líta út á ákveðinn hátt getur einnig haft neikvæð áhrif á líkamsmynd. Stúlkur í dag upplifa mikinn þrýsting um að vera grannar og upplifa því þörf fyrir að breyta líkama sínum. Þrýstingur um ákveðið vaxtarlag getur verið beinn og óbeinn. Dæmi um beinan þrýsting getur verið særandi orð foreldra, vina, kennara eða annarra um vaxtarlag viðkomandi.
Foreldrar geta haft óbein áhrif á mótun slæmrar líkamsmyndar með því að tjá áhyggjur af eigin líkamsvexti, tala um ókosti þess að vera með aukakíló og sýna hegðun sem tengist megrun eins og að fylgjast grannt með innbyrðum hitaeiningafjölda. Með þessum hætti myndast óbeinn þrýstingur frá foreldrum um grannan vöxt. Viðhorf foreldra til feits vaxtarlags er þá neikvætt og getur það haft þau áhrif að börn þeirra og unglingar, sem telja sig yfir kjörþyngd, upplifa óánægju foreldranna gagnvart sér. Ef foreldrar hafa áhyggjur af matarvenjum eða hreyfingarleysi barna sinna er mun betra að leggja áherslu á hollan og fjölbreyttan mat og skemmtilega hreyfingu án þess að tengja það við kíló, líkamsvöxt eða útlit.
Annað dæmi um óbeinan þrýsting eru samtöl meðal vina. Samtöl um útlit, líkamsvöxt og mikilvægi þess að vera grannur geta haft neikvæð áhrif á líkamsmynd. Líkamsmynd getur orðið fyrir hnekkjum ef við tölum oft um útlit, líkamsvöxt og þyngd við vini og kunningja og því meira sem við samþykkjum það viðhorf að grannur vöxtur sé eftirsóknarverður.
Sú tilhneiging að aðhyllast ákveðið vaxtarlag og að bera sig saman við aðra geta einnig haft neikvæð áhrif á líkamsmyndina. Til að mynda má rekja óánægju fjölda stúlkna með eigin líkama til þess hve mikið þær aðhyllast grannan vöxt og hve ólíkur sá vöxtur er raunverulegu vaxtarlagi þeirra. Þar sem fáar stúlkur uppfylla skilyrðin um hinn eftirsóknarverða vöxt þá má segja að meiri hluti þeirra beri sig saman við útlit sem fæstar þeirra geta nokkurn tímann öðlast.
Það er sterk tilhneiging hjá fólki að bera sig saman við aðra og gerum við það oftar en ekki til að mynda okkur skoðun á okkur sjálf. Þetta getur tengst slæmri líkamsmynd þar sem því nær sem við teljum okkar eigið útlit vera því útliti sem talið er aðlaðandi, því ánægðari erum við með okkur. Líkamsmynd veltur því að miklu leyti á þeirri ímynd sem er af aðlaðandi útliti í okkar samfélagi og hvernig við skynjum líkama okkar út frá ímyndinni. Til að mynda hefur það neikvæð áhrif á líkamsmynd og eykur vanlíðan að bera sig saman við aðra sem samkvæmt gildum samfélagsins líta betur út en við sjálf.
Sjálfsmynd og líkamsmynd eru veigamiklir þættir í andlegri líðan okkar. Góð sjálfsmynd/líkamsmynd getur haft verndandi áhrif á heilsu okkar, bæði líkamlega og andlega. Neikvætt viðhorf til líkama og útlits tengist til dæmis neikvæðu sjálfsmati, átröskunum og þunglyndi. Líkamsmynd getur einnig haft áhrif á lífsvenjur. Rannsóknir benda til þess að einstaklingar sem eru sáttir í eigin skinni, óháð útliti eða holdafari, hugsa betur um sig og hreyfa sig meira en þeir sem hafa neikvætt viðhorf til eigin líkama.
Það er því gríðarlega mikilvægt og ábyrgðarhluti allra sem koma að uppeldi barna huga að líkamsmynd þeirra og vinna gegn stríðni og fordómum vegna útlits.
Líkamsmynd getur orðið fyrir hnekkjum ef við tölum oft um útlit, líkamsvöxt og þyngd við vini og kunningja og því meira sem við samþykkjum það viðhorf að grannur vöxtur sé eftirsóknarverður.
Það er því gríðarlega mikilvægt og ábyrgðarhluti allra sem koma að uppeldi barna huga að líkamsmynd þeirra og vinna gegn stríðni og fordómum vegna útlits.