Tilfinningar okkar birtast ekki upp úr þurru

Ef ég segði við þig, ég vann 100.000 krónur í lottó í gær, ég er ekkert smá leið yfir því, þá yrðir þú sennilega hissa. Eða ef ég segði við þig, ég hlakka svo til að fara til tannlæknisins, það er alltaf svo hryllilega vont. Við erum flest sammála um að ef við myndum vinna pening yrðum við glöð og ef við værum að fara að upplifa hryllilegan sársauka yrðum við kvíðin.

Það tengist því að tilfinningar okkar tengjast beint við ákveðnar hugsanir eða mat á aðstæðum, hvað okkur finnst um það sem er að gerast eða hvað við höldum um það sem við erum að hugsa um.

Ef ég vinn til dæmis 100.000 krónur í lottó en kemst svo að því að vinkona mín vann milljón í síðustu viku, gæti mér fundist þetta vera ömurlegur vinningur og að allir væru heppnari en ég. Þá myndi passa að ég væri leið yfir einhverju sem flestum þætti gleðitíðindi, sennilega væri ég líka að finna fyrir sjálfsvorkunn.

Ef ég myndi svo frétta að vinkona mín hafi verið að ljúga að mér gæti ég orðið pirruð ef ég hugsaði ,,hún hlýtur að hafa gert þetta viljandi til þess að eyðileggja fyrir mér vinninginn”. Eða ég gæti fundið fyrir létti ef ég hugsaði ,,vá hvað ég er fegin að ég var ekki að ljúga, ég vann í alvörunni pening”. Þá yrði ég sennilega líka fljótt glöð aftur og jafnvel þakklát.

Orð eins og hissa, tilhlökkun, gleði, kvíði, leið/ur, sjálfsvorkunn, pirringur, léttir og þakklæti eru allt orð yfir tilfinningar. Tilfinningar gefa lífinu lit og ljá merkingu í það sem er að gerast í lífi okkar. Við eigum mörg hundruð orð yfir tilfinningar, sum þeirra lýsa sömu tilfinningu eða svipaðri og sum gefa til kynna ólíkan styrkleika á sömu tilfinningu t.d. stress, kvíði og skelfing eða pirringur, reiði og ofsareiði.

Sumum tilfinningum fylgja sterk líkamleg einkenni, til dæmis kvíða, depurð og reiði. Kvíði og reiði virkja drifkerfið okkar. Drifkerfið á að hjálpa okkur að bregðast við ógn með því að flýja eða berjast við hana (e. fight or flight response). Þegar við erum kvíðin fáum við oft magaverk, hjartað slær hraðar, við öndum grunnt og hratt, vöðvar spennast upp og útlimir skjálfa. Hugsanir fara á flug og skynfærin skerpast. Við roðnum í framan og svitnum meira. Reiði fylgja um margt sömu líkamlegu einkenni, en við tengjum meira við að hitna í maga og andliti og spenna hnefa. Depurð og skömm fylgja frekar þreyta og orkuleysi, máttleysi í útlimum.

Svo tengjast tilfinningar líka hegðun, því við finnum fyrir löngun til þess að hegða okkur í samræmi við hvernig okkur líður. Þegar við erum kvíðin viljum við forðast það sem vekur kvíðann eða reyna að stjórna honum eins og hægt er t.d. með því að hafa einhvern nálægt okkur eða biðja aðra um ræða það sem við óttumst og veita okkur fullvissu. Þegar við erum döpur viljum við draga okkur í hlé frá samvistum, við sækjum í herbergið okkar, myrkur, tölvuleiki eða sjónvarp. Þegar við erum reið viljum við vaða í það sem vakti með okkur reiði, við kreppum hnefa og dettum í ofuralhæfingar í garð þess sem vakti með okkur reiði (t.d. ,,þú vilt ALDREI gera það sem mig langar að gera“). Við sækjum eftir að hella úr skálum reiðinnar á aðra, jafnvel saklausa áhorfendur.

Tilfinningar gefa lífinu lit og ljá merkingu í það sem er að gerast í lífi okkar.
Sumum tilfinningum fylgja sterk líkamleg einkenni, til dæmis kvíða, depurð og reiði.
Svo tengjast tilfinningar líka hegðun, því við finnum fyrir löngun til þess að hegða okkur í samræmi við hvernig okkur líður.