Streita foreldra og sjálfsmynd barna
Það er gamall sannleikur og nýr að fjölskyldan er hornsteinninn í mótun barna til allra hluta. Fjölskyldur geta verið af margs konar toga bæði hvað varðar samsetningu, gildismat, formgerð og innihald. Sumar eru margmennar og aðrar fámennari. Verulegur meirihluti fjölskyldna á Íslandi eru samsettar fjölskyldur. Einhver útgáfa af mér, þér, börnunum þínum, börnunum mínum og börnunum okkar.
Mikilvægasti þátturinn og sá sem hefur mest áhrif á sjálfsmynd og sjálfsstyrk barna er þó alltaf meira innihaldið en formgerðin. Andrúmsloft, aðbúnaður, öryggi, nánd og samvera eru lykilhugtök þegar kemur að þessari mótun. Foreldrar stýra og leiða þessa vegferð og þess vegna gildir reglan: „Við þurfum að setja súrefnisgrímurnar fyrst á okkur sjálf”. Einungis þannig ná foreldrar að hafa þá yfirsýn og krafta sem þarf til að móta börnin okkar til góðrar sjálfmyndar og öryggis í vandasamri tilveru.
Það er alþekkt að við Íslendingar vinnum lengri vinnudaga en flestar þær þjóðir sem við berum okkur saman við. Atvinnuþátttaka kvenna er með því hæsta sem gerist. Lífsgæði hafa verið há á Íslandi og sókn í meiri veraldleg lífsgæði hefur verið mikil.
Sumir foreldrar eiga þó erfitt með að búa til skil milli vinnu sinnar og heimilisins.
Kem ég heim með afgangana af sjálfum mér eftir að ég er búinn að nota allt það besta sem ég á í vinnunni? Eða á fjölskylda mín frekar skilið að fá betri útgáfuna af sjálfum mér? Er það í raun þannig að þegar ég kem heim er ég búinn að nota alla orkuna mína í vinnunni – ef til vill í mjög streitufullu vinnuumhverfi? Er það þá þannig að þegar ég kem heim þá er það eina sem ég get gert að ná endurhleðslu - en hef lítið sem ekkert að gefa sjálfur til þeirra sem þurfa á mér að halda?
Held ég áfram í vinnunni eftir að ég kem heim? Ef til vill í gegnum tölvu eða farsíma. Er hugurinn klofinn milli vinnunnar og heimilisins? Er ég þá bara með hálfan huga, hálfa athygli þegar ég er jafnvel að sinna börnunum eða ræða við maka minn?
Engin samskipti á netmiðlum koma í staðinn fyrir mannleg samskipti þó þau geti vissulega verið frábær til síns brúks. Þegar við erum í tengslum við snjalltækin bitnar það alltaf á tengslum við umhverfi okkar – eðlilega. Foreldrar sem eru að sinna börnunum sínum á sama tíma og þau eru að skoða símann sinn eða svara tölvupósti í tölvunni sinni eru ekki með fulla athygli á börnunum. Því upplifa börnin höfnun með skertri athygli foreldranna og geta dregið þá ályktun að þau séu ekki eins mikils virði. Börn þurfa fulla athygli okkar og sérstaklega á það við eftir langan vinnudag í leikskóla eða skóla. Við erum fyrirmyndir þeirra um flesta hluti og því afar mikilvægt að sú fyrirmynd sé til staðar í heilu lagi en ekki hálfu.
Nýlegar rannsóknir hafa berlega leitt í ljós að snjallsímanotkun foreldra getur haft áhrif á tengslamyndun foreldra og barna. Þetta á einkum við aðstæður þar sem foreldrar eru „fjarverandi” í símanum. Þetta getur leitt til þess að barnið finni fyrir óöryggi og jafnvel höfnun sem getur haft áhrif á þroska barnsins. Þá er hitt líka umhugsunarefni að snjallsímanotkun barna er líka mikil. Í nútíma samfélagi er áreiti mikið sem að einhverju leiti má rekja til snjallsímanotkunar og samfélagsmiðla. Þessi áreiti geta haft mikil áhrif á samverustundir fjölskyldunnar ef þær þróast í að fólk situr saman án þess í raun og veru að vera almennilega saman þar sem þau eru samtímis tengd öðru eða öðrum.
Stundum er sagt að það séu mannréttindi barna að losna reglulega við foreldra sína. Þó þetta sé ef til vill svolítið groddaralega sagt þá er broddurinn sá að ef foreldrar sinna ekki sjálfum sér eða parsambandinu er næsta víst að börn eiga frekar leiða og einhæfa foreldra í lélegu sambandi hvort við annað. Við verðum að sinna okkur sjálfum svo við getum sinnt þeim.
Andrúmsloftið sem við ölumst upp við ræður miklu um hvernig einstaklinga við ölum af okkur. Foreldrar sem bjóða upp á velvild, góðsemi, hvatningu, örvun, kærleika og ást munu hafa afar jákvæð áhrif á þróun fjölskyldumeðlima sinna. En foreldrar sem bjóða upp á mikið ósætti, óvild, skömm, reiði og vonbrigði munu að sama skapi ala af sér óörugga, reiða, ruglaða og dapra einstaklinga.
Að eiga góða nánd í samskiptum þar sem fjölskyldan er ofarlega í forgangsröðun lífsins – bæði í orði og í verki - er aðalsmerki góðs uppeldisumhverfis. Tilfinningar og andrúmsloft smitar og sérstaklega til þeirra sem við elskum og þeirra sem elska okkur. Á það bæði við um jákvæða og neikvæða þætti. Við foreldrar þurfum að íhuga vandlega hvernig andrúmsloft við viljum skapa fyrir okkar fjölskyldu. Að skapa góða einstaklinga með góða sjálfsmynd gerist bara ekki af sjálfu sér.
Við þurfum einnig að skoða hvernig samfélag við viljum búa í. Viljum við hafa fjölskylduvænna samfélag? Þar gæti stytting vinnuvikunnar orðið mikið framfaraspor. Það er nefnilega samfélagsleg ákvörðun að gefa meiri tíma og vægi í samveru fjölskyldunnar.
Held ég áfram í vinnunni eftir að ég kem heim? Ef til vill í gegnum tölvu eða farsíma. Er hugurinn klofinn milli vinnunnar og heimilisins? Er ég þá bara með hálfan huga, hálfa athygli þegar ég er jafnvel að sinna börnunum eða ræða við maka minn?
Foreldrar sem bjóða upp á velvild, góðsemi, hvatningu, örvun, kærleika og ást munu hafa afar jákvæð áhrif á þróun fjölskyldumeðlima sinna.