Samtalið – Hvernig nýtum við þessa síðu?
Aðstæður íslenskra barna hafa batnað mikið á undanförnum árum. Það sést t.d. á rannsóknum á áhættuhegðun. Slík hegðun hefur minnkað og talað er um íslenska módelið í því sambandi. Aðrar þjóðir líta til okkar hvað varðar þann árangur. Áfengis- og vímuefnanotkun hefur minnkað, færri reykja og minna er um almenna óreglu. Á sama tíma sjáum við kannanir sem sýna svo aðrar niðurstöður. Meiri depurð, meiri sálfélagslega streitu, sérstaklega meðal stúlkna, er það sem kemur fram í rannsóknum vísindafólks háskólanna og fyrirtækja eins og Rannsóknar og Greiningar.
Þegar þessar ákveðnu rannsóknir eru skoðaðar virðast þær vera í samræmi við það sem við sjáum gerast í löndunum í kringum okkur. Margar þeirra tengja við aukningu í notkun skjátækja og þá oft notkun samfélagsmiðla. Þar stangast rannsóknir þó nokkuð á en eitt er víst, þetta verður viðfangsefni rannsakenda næstu áratugina. Að átta okkur betur á því hver þróunin verður og halda áfram að fínpússa forvarnarmódelið. Tæknin þróast nefnilega mun hraðar en maðurinn og heili hans. Það þarf því að rannsaka áfram og betur hvort vinsældir snjalltækja og samfélagsmiðla, aukin kulnun í samfélaginu og meiri streita foreldra hafi áhrif á sjálfsmyndaruppbyggingu barnanna okkar og þá hvernig.
Það sem oft hefur verið nefnt í þessu sambandi er að vandinn liggur ekki síður hjá foreldrum og þeirra eigin notkun á skjámiðlum. Þegar börn finna að foreldrum þeirra langar að vera með þeim og tala við þau þá þrífast þau betur. Þessi áhugi þarf ekki að skilgreina öll samskipti við barnið því það verður líka að læra að vera sjálfu sér nægt. En reglulegur áhugi og athygli er nauðsyn og styrkir sjálfsmynd þeirra.
Þessi síða er ætluð foreldrum, kennurum og öðrum sem starfa með börnum og unglingum. Við vonumst til að efni síðunnar og ekki síst verkefnin í verkfærakistunni verði til þess að ýta undir samtöl og pælingar heima fyrir. Það er mikil nánd í því að sitja saman og spá í lífinu og tilverunni og jafnvel læra eitthvað nýtt. Taka ákvörðun um að gera þakklætisdagbók saman í eina viku eða svo, spá í tilfinningum og jafnvel uppgötva fleiri orð til að lýsa þeim. Sjá að stundum festumst við í hugsunum sem eru ekki alveg sanngjarnar eða hjálplegar fyrir okkur og læra hvað það er gott að kyrra stundum hugann svo eitthvað sé nefnt.
Foreldrar eru sérstaklega hvattir til að gera þessar æfingar með börnum sínum og jafnvel styrkja sína eigin sjálfsmynd í kjölfarið. Framboð til foreldra hvað varðar bækur og námskeið sem miða að því að styrkja börnin sín hefur aukist undanfarin ár og vonandi heldur þróunin áfram að vera þannig. Þessi síða er innlegg í þá flóru.
Mikilvægt er að taka fram að þessar æfingar koma ekki í staðinn fyrir sálfræðimeðferð eða athygli einhvers heilbrigðisstarfsmanns ef vandinn er þess háttar. Mögulega geta þær þó stutt við slíkt ferli en koma ekki í staðinn fyrir mat fagaðila.
Foreldrar eru miklu öflugri í uppeldisferðalaginu en þeir oft átta sig á sjálfir. Þeir foreldrar sem efast um hlutverk sitt, hvar þeir þurfa að vera til staðar og hversu miklu máli þeir skipta, finna vonandi hvatningu til að halda áfram að læra og æfa sig. Ekkert foreldri er fullkomið. Mikilvægt er að vanda sig, skipta stundum um skoðun og biðja um aðstoð. Læra af öðrum en fyrst og fremst nota innsæið sitt. Nauðsyn þess að styrkja sjálfsmynd hefur alltaf átt við. Það tapar enginn á því svo lengi sem aðferðirnar eru gagnreyndar og viðeigandi fyrir hvern aldurshóp.
Samtalið hefur alltaf verið mikilvægt og sérstaklega núna. Við stýrum ekki alltaf því sem á börnunum dynur. Sum samfélagsleg öfl eru komin til að vera, en við getum stýrt því hvernig börnin okkar taka þeim og hvernig áhrif þau hafa á þau.
Það þarf því að rannsaka áfram og betur hvort vinsældir snjalltækja og samfélagsmiðla, aukin kulnun í samfélaginu og meiri streita foreldra hafi áhrif á sjálfsmyndaruppbyggingu barnanna okkar og þá hvernig.
Við vonumst til að efni síðunnar og ekki síst verkefnin í verkfærakistunni verði til þess að ýta undir samtöl og pælingar heima fyrir. Það er mikil nánd í því að sitja saman og spá í lífinu og tilverunni og jafnvel læra eitthvað nýtt.