Hvaða máli skiptir samkennd?
Flestir foreldrar myndu taka undir þá ósk að börn þeirra yxu úr grasi sem heilsteyptir einstaklingar. Hvað það felur nákvæmlega í sér er hins vegar óljósara. Sumir foreldrar hafa mjög skýrar hugmyndir um markmið í uppeldi, aðrir einbeita sér meira að því að klára hvern dag eftir bestu getu.
Heilbrigð og sterk sjálfsmynd er góður grunnur að heilsteyptum einstaklingi, óháð hugmyndum um árangur, markmið eða metnað.
Sjálfsmynd fullorðinna mótast að miklu leyti í barnæsku og tekur mið af því sem sagt er við börnin, því sem gefið er í skyn í kringum þau, því sem ekki er sagt við þau, við hvern þau miða sig og hvað kemur fyrir þau (bæði jákvætt og neikvætt). Að öllu þessu sögðu skiptir enn meira máli hvernig þau túlka svo alla þessa áhrifaþætti.
Tökum dæmi: Stína kemur heim með próf í stærðfræði og sýnir pabba sínum. ,,Ég fékk B+ í prófinu“. Pabbi hennar lítur upp og segir við hana: ,,já flott elskan“ og fer svo aftur að lesa grein í símanum. Stína finnur fyrir þyngslum fyrir brjósti og fer að hugsa um Binna bróður sinn sem er að læra læknisfræði. ,,Binni fékk örugglega alltaf A“ skýst upp í kollinn á henni og fast á hælana hugsunin: ,,þú hefðir getað gert betur“.
Þetta einfalda dæmi sýnir okkur að það eru ekki bara viðbrögð annarra við barninu sem móta sjálfsmynd þess, heldur hvernig barnið túlkar það sem við það er sagt og hvernig það er sagt. Sú túlkun litast svo af samanburði við aðra, fyrri reynslu og samfélaginu í kringum barnið, bæði meðvitað og ómeðvitað.
Við getum ekki stjórnað umhverfi barna okkar nema að litlu leyti og við vitum oft ekki hvernig þau túlka umhverfið sitt. En við getum reynt að leggja grunn að heilbrigðum venjum og gagnlegri sýn (túlkun) á lífinu.
Samkennd í eigin garð snýst um að geta sýnt sjálfum sér sama skilning, umburðarlyndi og þolinmæði og við sýnum öðrum í kringum okkur. Hún snýst um að gera greinarmun á því sem við höfum stjórn á (s.s. að læra fyrir próf) og ekki stjórn á (veikindi sem komu í veg fyrir að þú værir vel lærð á prófinu). Að sýna sér skilning felur í sér getuna til þess að mæta sér þar sem maður er staddur (geta mætt á fótboltaæfingu þó maður hafi ekki verið valinn í A- liðið, eða eftir meiðsli). Að sýna sér skilning gerir barni kleift að taka áhættu og prófa eitthvað nýtt, en forsenda þess að taka áhættu í lífinu er að geta ráðið við að gera mistök eða vera ekki bestur í einhverju.
Margir rugla samkennd saman við sjálfsvorkunn. Samkennd í eigin garð snýst ekki um að réttlæta eða afsaka sig, heldur raunsæja hugsun, sveigjanlega hugsun og gagnleg viðbrögð við aðstæðum sem við erum ósátt við. Samkennd í eigin garð eflir getu barna til að forgangsraða áherslum og gera greinarmun á því sem skiptir þau miklu máli og því sem skiptir þau minna eða engu máli. Barn sem sýnir sér skilning getur t.d. sætt sig við að fá aðeins lægri einkunnir í menntaskóla af því að það hefur valið að vera líka í nemendaráði og langar að vinna aðra hvora helgi. Börn og fullorðnir sem sýna sér ekki skilning verða harðir húsbóndar og rífa sig niður fyrir að vera ekki 100% á öllum vígstöðvum og gera oft sömu kröfur á sig, alveg óháð gildum og áhuga. Dæmi um slíkt væri unglingur í MR á eðlisfræðibraut sem ætlar í læknisfræði, en er ennþá að rífa sig niður fyrir að halda ekki í við félagana í fótboltanum eða í tónlistarnáminu.
Samkennd í eigin garð felur í sér sátt á eigin takmörkunum og sátt við að við verðum stundum að forgangsraða tíma okkar og orku. Samkennd í eigin garð felur í sér að þola vonbrigði og mistök, geta tekið viðeigandi og sanngjarna ábyrgð á eigin hegðun og afleiðingum, lært af reynslunni og valið hvar við viljum gera betur og hvar við ætlum bara að leika okkur og njóta.
Í verkfærakistunni má finna gagnlegar æfingar til að þjálfa samkennd:
Samkennd í eigin garð eflir getu barna til að forgangsraða áherslum og gera greinarmun á því sem skiptir þau miklu máli og því sem skiptir þau minna eða engu máli.