Foreldrasáttmáli
Foreldrasáttmálinn er leiðarvísir sem bekkjarfulltrúar og umsjónarkennarar geta nýtt sér til að koma af stað umræðum um hlutverk foreldra í uppeldi og efla skilning á mikilvægi samstarfs og þátttöku foreldra í skólastarfi barna sinna.
Foreldrasáttmálinn hefur verið lagður fyrir í fjölmörgum skólum um allt land og í þeim samfélögum þar sem góð samstaða hefur náðst um samninginn er fólk sammála um jákvæð áhrif hans á unglingamenninguna sem og samstöðu foreldra um að virða útivistarreglurnar svo fátt eitt sé nefnt. Sáttmálinn kemur út í mismunandi útgáfum fyrir hvert stig grunnskólans og er honum ætlað að vekja uppalendur til vitundar um mikilvægi þess að sýna uppvexti og skólagöngu barna sinna og unglinga áhuga og setja þeim skýr mörk.
Í þessu forvarnarverkefni er m.a. bent á að foreldrar sem senda barn útsofið í skólann eru að leggja sitt af mörkum til að barnið nái æskilegum námsárangri. Einnig tekur sáttmálinn til eineltis, samábyrgðar og reglna um notkun á tækni eins og tölvuleikjum og aðgengi að netinu og snjallsímum en í þeim málum er mikilvægt fyrir foreldra að geta haft samráð. Sáttmálinn er fáanlegur á þjónustumiðstöð Heimilis og skóla en jafnframt má nálgast rafræna útgáfu hans hér á vefsíðu Heimilis og skóla.