Á ég að stoppa notkun samfélagsmiðla?
Ekki er hægt að telja það vera raunhæfan kost að stöðva alfarið notkun samfélagsmiðla. Áherslan ætti frekar að vera á að kenna börnum hvernig þau nota þessa áhrifaríku miðla á ábyrgan hátt. Þó skiptir máli að fara eftir aldurstakmörkunum og er mikilvægt að foreldrar ráðfæri sig við hvort annað.
Mælt er með að seinka því eins lengi og hægt er að barn byrji að nota samfélagsmiðla. Algeng aldurstakmörk eru 13 ára. Þegar notkunin fer svo af stað þarf að fylgjast vel með henni. Þá skiptist þjálfunin í tvennt: Annars vegar þarftu að þjálfa barnið þitt í samfélagslæsi og gagnrýnni hugsun. Börn þurfa að læra að taka ekki öllu sem þar birtist gagnrýnislaust. Hins vegar þurfa foreldrar að leggja áherslu á að kenna góðar samskiptavenjur. Þegar kemur að samskiptaþjálfun barna í dag þurfum við að huga að ýmsu sem ekki þurfti að gera áður fyrr. Nú eiga samskipti sér stað mikið til í netheimum - leikhússviði samfélagsmiðlanna, þar sem oft er auðveldara að segja eitthvað særandi.
Gott er að byrja að kenna þetta um leið og barnið fær sinn fyrsta síma. Þá er best að sleppa öllum samskiptaforritum og einblína á að kenna barninu hvernig maður á samskipti í símasamtölum og textaskilaboðum (sms). Hvernig byrjar maður símtal og hvernig endar maður það? Hvernig svarar maður skilaboðum? Hvað má ekki segja þar? – Hvað væri særandi? Hvað er kurteist svar? Hversu oft sendir maður skilaboð? Klukkan hvað sendir maður ekki skilaboð osfrv? Síðar er svo hægt að bæta við samfélagsmiðlunum og öllum samskiptareglunum sem eiga heima þar.
Þegar á unglingsaldurinn kemur eru flestir komnir með samfélagsmiðlana í símann. Þá þurfa foreldrar samt að hafa aðgang að honum og geta fylgst með því sem þar fer fram. Hvert og eitt foreldri ákveður svo hversu oft það er gert og hversu nákvæmlega. Það fer eftir aðstæðum hvers unglings. Best er að nota þá reglu að ef foreldrið skynjar að eitthvað sé í gangi þá skal skoða símann, annars ekki. Við hugsum um öryggið þegar við tökum þá ákvörðun að skoða símann. Við eigum ekki að skoða símann eingöngu af forvitni.
Einnig er hægt að velja að fylgjast betur með t.d. því sem rúllar inn á instagram heldur en að skoða öll samskipti sem unglingurinn á. Hvaða áhrifavaldar eru þar inni og þarf að ritskoða þá eitthvað? Finna mögulega aðra sem unglingur ætti auðveldara með að tengja við, einhvern sem er að gera eitthvað uppbyggilegt og áhugavert í lífinu.
Því meira sem búið er að leggja í samskiptaþjálfun á grunnstigi og miðstigi grunnskóla því minna þarf að vera inn í öllum samskiptum á netinu á unglingastiginu.
Þeir fagaðilar sem starfa með börnum og unglingum taka eftir neikvæðum áhrifum samfélagsmiðla á svefnvenjur og sjálfsmynd - einkum of miklum samanburði við aðra, neikvæðri líkamsmynd og leit eftir ytri viðurkenningu. Fagaðilar eru sammála um að foreldrar þyrftu að vera ákveðnari í að stöðva notkun samfélagsmiðla á kvöldin. Samfélagsmiðlarnir - aðallega spjallið, virðist hafa truflandi áhrif á nætursvefn margra unglinga og menntskælinga. Unglingar sem leita til sálfræðinga tala margir hverjir um að eiga erfitt með að fara að sofa vegna þessa. Þau tala um að hræðast það að hætta í spjallinu á undan öðrum. Þeim finnst erfitt að hugsa til þess að missa þá af einhverju og hræðast jafnvel baktal ef þau hætta spjallinu snemma.
En rannsóknir á tengslum samfélagsmiðla á sjálfsmynd og líðan eru hins vegar skammt á veg komnar og þyrftu að vera fleiri á komandi árum.
Annars vegar þarftu að þjálfa barnið þitt í samfélagslæsi, gagnrýnni hugsun og hvernig það á að taka öllu sem fer fram á samfélagsmiðlum. Hins vegar þurfa foreldrar í dag að þjálfa barnið sitt í að haga sér vel í öllum þessum samskiptum samfélagsmiðlanna.