Spurt en ekki svarað
Gögn: Spurningar og svör sem ekki eru fullnægjandi.
Markmið: Að gera sér grein fyrir því að þegar spurningu er svarað er nauðsynlegt að svarið sé við þeirri spurningu sem varpað var fram en ekki við einhverri annarri spurningu. Einnig er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að spurningu sé ekki svarað út í hött eða með útúrsnúningi. Þegar þátttakendur vinna með spurningar skal leggja áherslu á að þeir tileinki sér þá tækni að spyrja á skýran hátt án óþarfa málalenginga.
Lýsing:
Leiðbeinandi kemur með tvö dæmi úr fjölmiðlum um spurningar sem ekki var svarað á fullnægjandi hátt. Það er um að gera að finna fleiri dæmi og má gera það t d með því að taka vel eftir þegar rætt er við stjórnmálamenn í fjölmiðlum.
1. Spurning útvarpsmanns: Þessar geldingar sem eru framkvæmdar án deyfingar hljóma nú ekki beint geðslega, er þetta útbreytt, er þetta gert á hverju svínabúi í landinu?
Svar viðmælanda: Allt sem lýtur að þessu hér á landi er framkvæmt og gert með hliðstæðum hætti og er hér í okkar næstu löndum og það sem um þetta má segja er það að við þekkjum þetta úr fleiri búfjártegundum. Talað er um að það megi ekki, það þurfi að slátra lambhrútum fyrir ákveðinn tíma á haustin til þess að tryggja það að ekki fari á markað kjöt með hrútabragði. Sama á við um svínin. Við leggjum áherslu á að neytendur fái það kjöt sem þeir vilja fá og þess vegna er þessi aðgerð óhjákvæmileg en hinsvegar eru núna í undirbúningi í nágrannalöndunum leiðir til þess að koma í veg fyrir geldingu. (Rás 2)
2. Spurning sjónvarpsmanns: S.l. sex ár hefur samtals verið skorið niður á Landspítalanum um rúm 20%. Hefur þú gert athugasemdir út af þessu?
Svar viðmælanda: Í okkar starfi þá höfum við haft í huga öryggi sjúklinga, öryggi þeirra sem nota þjónustuna, við fylgjumst vel með því sem gerist á deildum. (RÚV sjónvarpsfréttir, 21.02.2013)
Eftir að hafa heyrt og jafnvel fengið að lesa sjálfir áðurnefndar spurningar og svör eru þátttakendur spurðir tveggja spurninga:
- Hvernig er svarið?
- Er ástæða til og mögulegt að laga spurningarnar án þess að merking þeirra breytist. Hafa spurningarnar hnitmiðaðri t.d. með því að fækka orðunum sem notuð eru.