Takast á við erfiðar hugsanir
Stundum festumst við í erfiðum hugsunum og tilfinningum. Margir foreldrar leita leiða til að aðstoða börn sín út úr slíkri líðan. Ein leið sem hægt er að nota eru svokallaðar fjarlægðarleiðir (difusion). Þá er barnið þjálfað í að taka eftir erfiðum hugsunum og mynda fjarlægð á þær. Þegar við festumst í holu með erfiðri líðan og hugsanirnar hreinlega taka okkur yfir er svo miklu erfiðara að berjast við þær. Þegar við myndum fjarlægð verðum við ekki jafn föst í erfiðum hugsunum og tilfinningum.
Stundum getur þessi leið virkað betur en að fara að rífast við erfiðu hugsanirnar og setja inn aðrar jákvæðari. Erfiðar hugsanir geta verið kvíðahugsanir, vonleysishugsanir, samanburðarhugsanir, sjálfsefahugsanir og svo framvegis. Svona hugsanir geta komið upp í aðstæðum sem tengjast vinamálum og samskiptum, aðstæðum sem eru kvíðavaldandi, útlitspressu og ýmsu öðru.
Æfum þetta svona:
Reyndu að búa til umhverfi þar sem barnið þitt er öruggt með að opna á sínar tilfinningar og hugsanir. Það getur verið erfitt að hlusta á barnið segja frá erfiðum hugsunum en reyndu að standast þá freistingu að reyna að sannfæra barnið með rökum að hugsa ekki á þennan hátt. Lykillinn er að hlusta og hlusta og hlusta svo meira. Reyndu að fá barnið til að taka eftir hugsunum sínum og spurðu það út í þær.
Þegar þið hafið átt samtal um hinar ýmsu erfiðu hugsanir sem barnið gæti haft skulið þið horfa á myndböndin hér að neðan. Horfið á myndböndin með barninu. Þegar það er búið skulið þið ræða meira og skoða svo aðferðirnar í verkefninu hér að neðan - þær geta hjálpað við að æfa þessa fjarlægð en það þarf að gera nokkuð markvisst. Skjalið er fyrir neðan myndböndin.