Hvernig líður öðrum?

Hér er um að ræða annað kjarnaatriði í allri vináttufærni.

Þegar við skiljum hvernig öðrum líður - og getum sett okkur í spor þeirra þá er auðveldara að velja samskipti sem henta í hvert sinn. Öllum félagslegum hópum gengur betur ef við tökum tillit til þeirra sem við ferðumst með í gegnum lífið. Ekki er ætlast til þess að fara samt í meðvirkni og setja ekki mörk en tillitssemi og skilningur þarf að vera til staðar til að öll mannleg samskipti gangi upp.

Sum börn skilja þetta hraðar en önnur - hafa gott innsæi að upplagi. Önnur þurfa meira að læra þetta og þjálfa.

Þau börn sem fá þjálfun í þessu gengur betur að fóta sig í ástarsamböndum framtíðarinnar og á vinnumarkaði.

Leiðir til að þjálfa:

Ein besta leiðin til að þjálfa þetta er að fara í stutt samtöl þegar eitthvað kemur upp á í daglegu lífi. Hægt er að nota tilfinningakortið hér og hér til að aðstoða við samtalið. Ræðið það hvernig andlitið breytist eftir því hvaða tilfinningu við erum að upplifa. Samtal við foreldri er s.s langbesta þjálfunarleiðin. Best er að setja þetta inn í samtal hér og þar þegar það passar - í smáskömmtum yfir lengri tíma. Ekki er hægt að taka bara á þessu í massavís í tvær vikur og þar með er þetta komið.

Spurningar til að ræða eru til dæmis

  • Hvernig líður þessu barni - þessum einstaklingi? Hvaða tilfinningar og hugsanir eru kannski að koma upp í huga þess?
  • Hvernig myndi mér líða ef þetta kæmi fyrir mig?
  • Hvað myndi hjálpa mér að líða betur í svona aðstæðum?
  • Hvernig veistu hvað góður vinur er?
  • Manstu hvenær þú varst góður vinur?
  • Hvernig heldur þú að vini þínum hafi liðið þegar þú varst góður vinur?

Hægt er að nota sérstakar félagsfærnisögur/ vináttufærnisögur eða nota bækur sem þegar er verið að lesa fyrir barnið. Þá er hægt að ræða aðstæður og atburði sem hafa að gera með að setja sig í spor annarra og skilja líðan annarra. Við getum rætt hvernig viðkomandi líður - hvað er hann að hugsa og hvað get ég gert.

Dæmi um aðstæður sem hægt er að ræða:

  • Vinur dettur af hjóli og meiðir sig.
  • Vinur skilur ekki eitthvað sem verið er að tala um í skólanum og aðrir stríða honum.
  • Vini er strítt í í þróttum því hann gat ekki gert einhverja æfingu.
  • Vinur er veikur heima og getur ekki komið í skólann og hitt vini.
  • Einhver er nýr í skólanum.
  • Þegar einhver er skilin út undan.

Kvikmyndir - teiknimyndir er önnur leið til að eiga þessi samtöl.

Æfa sérstaklega samkennd gagnvart öðrum. Hér eru slíkar æfingar. Einnig er hægt að skoða appið okkar (Sterkari út í lífið) en þar er hægt að hlusta á æfingar sem þjálfa þetta. Til dæmis:

Gott er að ræða við börn af hverju það skiptir máli að skilja tilfinningar annarra svo þau mögulega finni áhugann á því sjálf. Þegar við skiljum aðra þá hjálpum við þeim að líða betur. Það er gott að vita að einhver reynir að skilja okkur, það gott að vita að við skiptum aðra máli. Svo eigum við auðvitað sjálf það skilið að aðrir reyni að skilja okkur.

Passaðu að hrósa barninu þegar það sýnir skilning á aðstæðum annarra og/eða tilfinningalíðan annarra.

Öll hegðun sem lýtur að skilningi og samkennd er smitandi. Þegar margir í hópnum leiða leiðina með þessum hætti þá verður allur hópurinn á endanum meira stilltur í þessa átt. Þarna getur líka skipt máli hvernig leiðtogarnir í hópnum haga sér. Ef leiðtogarnir eru jákvæðir að þessu leyti þá hefur það áhrif á allan hópinn - og öllum líður betur.
Hér eru stuttar teiknimyndir sem eru á ensku en flestar án tals - þær geta verið gagnlegar til að byrja samtöl um vináttufærni og skilning á öðrum.

 

Sjálfselski Krókódíllinn

Góðvild er ofurkrafturinn minn

Þegar enginn er að horfa - Krafturinn í góðvildinni

Tilfinningar, sjálfstraust og góðvild

Regnhlífin - verðlaunamynd um góðvild og von

Litaðu heiminn með góðvild

Brúin

Góðvild er smitandi

Sönn vinátta